Sigurður Hannesson, annar varaformanna framkvæmdahóps um afnám hafta, segist ekki eiga von á því að kröfuhafar fari í mál vegna haftaáætlunar stjórnvalda sem kynnt var á mánudag. Býst hann frekar við því að kröfuhafar vilji frekar ganga að skilyrðum stjórnvalda. Þetta kemur fram í viðtali við hann í Markaðnum .

„Valið er mjög skýrt og auðvitað skiptir fjárhagslega útkoman máli. Þar með eru auðvitað hvatar til þess að ganga að þessum stöðugleikaskilyrðum,“ segir Sigurður. Hann leggur jafnframt áherslu á að viðræður sem fram fóru við kröfuhafa hafi ekki verið samningaviðræður.

„Þetta voru fundir þar sem þessum aðilum var gert grein fyrir tveimur valkostum. Annað hvort getið þið farið eftir þessum ráðstöfunum sem líta svona út eða þá að það leggst á ykkur skattur. Og þarna komum við að kjarna málsins varðandi aðferðafræði stjórnvalda,“ segir Sigurður í samtali við Markaðinn.