*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 22. október 2020 09:08

Býst við að flestir segi nei

Samherji boðar um 22 milljarða króna yfirtökutilboð í Eimskip eftir að hafa fengið undanþágu frá slíku tilboði í vor.

Alexander Giess
Þorsteinn Már Baldvinsson er annar tveggja forstjóra Samherja.
Aðsend mynd

Menn sjá ekki fyrir sér neinar stórar eignabreytingar á Eimskipi í sambandi við þetta,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, spurður út í yfirtökutilboð Samherja á öllu hlutafé Eimskips í gær, 21. október. „Að sjálfsögðu tala ég ekki fyrir hönd lífeyrissjóða eða annarra eigenda, en við búumst við því að lífeyrissjóðir verði áfram eigendur. Það er bara verið að klára það sem var byrjað á í mars,“ segir Þorsteinn og vitnar þar til yfirtökutilboðs Samherja á hlutafé Eimskips í vor á þessu ári sem síðar var hætt við.

Að sögn Þorsteins verður yfirtökugengið 175 krónur eða það gengi sem Samherji jók hlutdeild sína á. Áætla má að yfirtökutilboðið nemi um 22 milljörðum króna, miðað við áðurnefnt gengi. Ekki er stefnt að því að hækka yfirtökutilboðið skyldu hluthafar hafna tilboði Samherja.

Yfirtökuskylda Samherja á öllu hlutafé Eimskips virkjaðist vegna þess að félagið fór yfir 30% hlut í Eimskip. Lög kveða á um að yfirtökutilboð fari fram á næstu fjórum vikum, en lífeyrissjóðirnir eiga samanlagt rúmlega helmingshlut í Eimskipi. Fram kemur í tilkynningu Samherja að félagið hyggst ekki afskrá Eimskip úr Kauphöllinni. Enn fremur kemur fram að „kaupin endurspegla þá trú sem stjórnendur Samherja Holding hafa á rekstri Eimskips“.

Samherji jók hlutdeild sína í Eimskipi um 0,29% í gær og á í kjölfarið 30,28% hlut í félaginu. Bréf Eimskips hækkuðu um 8,66% í tæplega 600 milljóna króna veltu í viðskiptum gærdagsins. Við lokun markaða stóð gengi bréfanna í 182 krónum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.