Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, býst við langvinnri og djúpstæðri stjórnarkreppu að loknum alþingiskosningunum í október. Þetta kom fram í viðtali hans við Sprengisand á Bylgjunni í morgun.

Össur sagði líklegt að fyrirverandi forseti landsins, Ólafur Ragnar Grímsson, hafi haft rétt fyrir sér þegar hann spáði því í upphafi árs að á landinu yrði stjórnarkreppa að loknum kosningum.

Össur benti jafnframt á að allir hefðbundnu flokkarnir standa illa um þessar mundir, þannig sé Samfylkingin í vanda, Sjálfstæðisflokkurinn hafi minnkað og Framsókn sjái fram á mikla höggorrustur í tengslum við forystuna. Þá sagði hann Pírata einnig í bölvuðum vanda og vísaði þar til þess að endurtaka hafi þurft prófkjör þeirra í Norðvesturkjördæmi.

„Ef það er ein ályktun sem ég dreg af þessu öllu saman þá er það að líkast til hafði Ólafur Ragnar hárrétt fyrir sér þegar hann spáði því hér í upphafi þessa árs að það yrði stjórnarkreppa. Ég hugsa að sú stjórnarkreppa gæti orðið langvinn og hugsanlega djúpstæð,“ sagði hann.