*

mánudagur, 26. október 2020
Innlent 18. janúar 2020 13:39

Býst við svipuðum fjölda ferðamanna

Aukinnar bjartsýni gætir í ferðaþjónustugeiranum í nýrri viðhorfskönnun KPMG fyrir SAF og íslenska ferðaklasann.

Höskuldur Marselíusarson
Jóhannes Þór Skúlason er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar sem stóð að viðhorfskönnun meðal ferðaþjónustuaðila ásamt með KPMG og Íslenska ferðaklasanum.
Þröstur Njálsson

Með falli Wow air í fyrra jukust áhyggjur ferðaþjónustuaðila af framboði flugsæta til landsins enda fækkaði ferðamönnum um ríflega 14% á síðasta ári. Þær áhyggjur fóru beint í annað sæti í nýrri viðhorfskönnun KPMG fyrir SAF og Íslenska ferðaklasann sem kynnt var á morgunverðarfundi á fimmtudagsmorgun.

Áhyggjur af kostnaði við bókunarsíður hröpuðu hins vegar niður í neðsta sæti listans og segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, að sú umræða hafi þroskast og aðilar séð hvað það myndi kosta að ætla að reyna að halda úti slíkum síðum sjálfir.

Í könnuninni var spurt út í væntingar ferðaþjónustuaðila um samkeppnishæfni á komandi ári, ógnanir og tækifæri á árinu sem og eftir fimm ár, áherslur síðustu 12 mánuði og hvaða þættir skipta fyrirtækin mestu máli á árinu.

Í síðasta tilfellinu gafst fyrirtækjum í geiranum kost á að raða málaflokkum í röð eftir mikilvægi, og þar brenna gengismálin helst á fyrirtækjunum, annað árið í röð. Þó lækkar hlutfall þeirra úr 35% í 28% sem telja samkeppnisstöðuna veikjast á árinu. Það gæti þó að einhverju leyti kristallast í því að hlutfall stærri fyrirtækja eykst í könnuninni milli ára.

Önnur atriði halda sinni stöðu innan mikilvægisröðunarinnar, utan þess að annars vegar nýsköpun og vöruþróun og hins vegar erlend samkeppni rjúka upp listann, það fyrrnefnda í 6. sæti og það síðarnefnda í 9. sæti. Jóhannes Þór segir skiljanlegt að samkeppnisumhverfi ferðaþjónustunnar, sem kristallist í gengismálunum, sé ofarlega í huga fyrirtækjanna, en einnig að nýi liðurinn um framboð flugs til og frá landinu skori hátt.

„Menn hafa reynt það svolítið á eigin skinni hversu miklu máli framboðið skiptir, og sjáum við að það verður áframhaldandi fækkun ferðamanna miðað við síðustu ár núna á fyrri hluta ársins, en síðan búumst við að sjá svipaðar tölur ef framboðið pikkar ekki upp á seinni hluta ársins," segir Jóhannes Þór.

„Háannatímabilið virðist vera að færast aftar í maí, það er stytting framan af, og þá frekar lenging inn í haustið. Þegar allt er komið þá ættum við að verða í svipuðum ferðamannafjölda í ár eins og á því síðasta. Ef hins vegar leysist úr MAX-vandanum um mitt ár, myndi það þýða gjörbreytingu fyrir Icelandair og aftur heilmikil tækifæri fyrir þá og aðra aðila á þessum markaði.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.