Breska síma- og fjarskiptafélagið Cable & Wireless gaf út afkomuviðvörun í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar í London.

Breskir fjölmiðlar orðuðu Novator, félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, við Cable & Wireless fyrr í vikunni og fullyrtu að eignarhluturinn félagins sé undir 3% og því hafi ekki myndast flöggunarskylda.

Cable & Wireless segir að rekstrartekjur verði undir væntingum á næsta reikningsári, sem endar í mars árið 2007, og greindi frá því að forstjóri Cable & Wireless muni hætta störfum hjá félaginu vegna endurskipulagningar á rekstrinum.

Afkomuviðvörunin nú er önnur viðvörunin sem félagið sendir frá sér á síðustu fjórum mánuðum.

Gengi bréfa Cable & Wireless féll um 15% í morgun í kjölfar afkomuviðvörunnarinnar, en hefur hækkað örlítið síðan og nam lækkunin rúmlega 10% um tíuleytið í morgun.