Breska sælgætis- og drykkjarvörufyrirtækið Cadbury Schweppes tilkynnti í gær að fyrirtækið hyggðist segja upp 7.500 starfsmönnum, en um þessar mundir starfa samtals 50 þúsund manns hjá Cadbury. Jafnframt býst félagið við því að selja drykkjarvöruframleiðslustarfsemi sína í Bandaríkjunum, en þar framleiðir fyrirtækið drykkina 7-Up, Dr Pepper og Snapple. Það er talið að söluverðið myndi verða í kringum 7,5 milljarðar punda. Í kjölfarið verður nafni fyrirtækisins breytt í Cadbury.

Markmiðið með þessari uppstokkun á rekstri félagsins er að auka hagnað þess um tíu prósent fyrir mitt ár 2011, en ljóst er að sætindabransinn mun halda áfram að reynast fyrirtækinu erfiður á næstu árum og viðurkenndi framkvæmdastjóri Cadbury að von væri á enn frekari niðurskurði í rekstri fyrirtækisins.