David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði í morgun að hann myndi leggjast gegn öllum hugmyndum um fjármálaskatt innan Evrópusambandsins.

Í viðtali við BBC sagði Cameron að Frökkum væri frjálst að leggja fjármálaskatt á frönsk fjármálafyrirtæki eða leggja fram hugmyndir um slíkan skatt innan ESB. Hann myndi hins vegar kjósa gegn því.

Álitsgjafi breska blaðsins Telegraph telur að með þessu sé Cameron að draga enn línu í sandinn í samskiptum við Þýskaland og Frakkland en leiðtogar þeirra ríkja hafa talað fyrir því að nauðsynlegt sé að setja á skatt á fjármálastarfsemi innan sambandsins. Bretar hafa lagst hart gegn því að leggja á slíka skatta og telja að það myndi skaða fjármálahverfið í Lundúnum, þaðan sem meginþorri skattsins yrði innheimtur.

Cameron tók þó fram að ef slíkur skattur yrði lagður á alls staðar annars staðar í heiminum myndi hann endurskoða afstöðu sína. Hann taldi þó út í hött að leggja skattinn á innan ESB eingöngu.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)