David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, fór yfir víðan völl í ræðu sinni á ársþingi Íhaldsflokksins í dag. Cameron lofaði meðal annars skattalækkunum fyrir lág- og millitekjufólk vinni breski Íhaldsflokkurinn kosningar til breska þingsins í maí á næsta ári.

Annars vegar hyggst Cameron hækka skattleysismörk í 12.500 pund á ári, sem myndi hafa jákvæð áhrif á ráðstöfunartekjur tekjulágra. Hinsvegar lofaði hann að mörk 40% skattþreps yrði hækkað úr 42.000 pundum í 50.000 pund á ári, sem er helst miðað að millitekjuhópum.

Boðar aukinn niðurskurð

„Íhaldsflokkurinn vill að ef þú leggur þig fram og gerir það sem þarf til haldir þú eftir meira af þeim peningum sem þú hefur unnið þér inn," segir Cameron. „Við viljum lækka skattana ykkar. Við getum bara gert það ef við dögum úr hallanum, það þarf að greiða fyrir skattalækkanir," bætti hann við.

Cameron lofaði því einnig að Íhaldsflokkurinn myndi beita sér gegn atvinnuleysi ungs fólks að atvinnuleysi í Bretlandi yrði það lægsta í þróuðum ríkjum undir stjórn flokksins.

Financial Times greinir frá.