Í nýju lagafrumvarpi sem David Cameron forsætisráðherra Bretlands hyggst kynna fyrir þinginu þar í landi eru fyrirtæki gerð sakaverð ef starfsfólk þess aðstoðar fólk við skattaundanskot á nokkurn hátt. Cameron kynnir þessa löggjöf vegna þess að upp komst í Panama-skjölunum svokölluðu að faðir hans ætti fyrirtæki í skattaskjóli, en í kjölfar þess játaði hann að hafa hagnast á fyrirtækinu.

„Ríkisstjórnin hefur barist gegn spillingu í hvaða mynd sem er, en þessi löggjöf mun taka baráttuna skrefinu lengra," sagði Cameron í tilkynningu frá skrifstofu sinni á Downing-stræti. „Þess vegna munum við gera þau fyrirtæki sem koma ekki í veg fyrir að starfsfólk sitt aðstoði aðra við að skjóta undan skatti sakaverð."

Eflaust á forsætisráðherrann breski við fyrirtæki á borð við banka sem veita kúnnum sínum þjónustu við að setja upp og stýra eignum og fyrirtækjum á aflandssvæðum á borð við Bresku-Jómfrúareyjar - en í fyrrnefndum Panama-skjölum var gert ljóst að mikill fjöldi fólks nýtir sér slík svæði til að geyma eignir sínar.