Breska fjárfestingarfélagið Candover Investments hefur nú fallið frá skilyrðum um lágmarkseignarhlut í yfirtökuboði sínu í Stork, segir í frétt Het Financieele Dagblad.

Candover hyggst leggja fram yfirtökuboð í Stork sem hljóðar upp á 47 evrur á hlut. En félagið hefur nú fellt niður skilmála sem segir til um að yfirtökuboðið sé ekki gilt nema að yfir 80% hluthafa samþykki það.

Marel, sem á 20,2% hlut í Stork og Delta Lloyd, sem á 5,14% hlut, hafa bæði lýst því yfir að yfirtökuboðinu verði ekki tekið á genginu 47 evrur, þar sem það sé of lágt. Í fréttinni segir að með því að afnema þennan skilmála yfirtökuboðsins sé Candover að reyna að koma í veg fyrir að Marel og Delta nái að aftra því að yfirtökuboðið nái fram að ganga.

Marel, eða öllu heldur Eignarhaldsfélagið LME ehf. (Landsbankinn, Marel, Eyrir) hefur verið að auka eignarhlut sinn í Stork að undanförnu og er nú stærsti hluthafi fyrirtækisins.