© Aðsend mynd (AÐSEND)
Capacent fagnar því að deilur um kaupverð á eignum félagsins verði nú loks til lykta leiddar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Capacent.

Skiptastjóri hefur höfðað mál þar sem farið er fram á riftun á kaupum starfsmanna á rekstri Capacent í september 2010. Þessi ákvörðun kemur ekki á óvart enda hefur skiptastjóri reglulega lýst því yfir í rúmt ár að slíkt mál yrði höfðað. Þetta er fjórða málið sem skiptastjóri höfðar á innan við tólf mánuðum.

Í fyrsta lagi hefur skiptastjóri áður krafist lögbanns á notkun vörumerkja Capacent. Þeirri kröfu var hafnað af Sýslumanninum í Reykjavík og síðar héraðsdómi.

Þá höfðaði skiptastjóri innsetningarmál þar sem krafist var umráða yfir öllum eignum þrotabúsins. Því máli var vísað frá jafnt í héraðsdómi sem Hæstarétti.

Loks hefur skiptastjóri höfðað mál gegn ríkinu vegna skila á staðgreiðslu skatta vegna launagreiðslna starfsmanna Capacent í ágúst 2010.

Capacent telur ítrekaða úrskurði dómstóla sýna að rétt og eðlilega hafi verið staðið að kaupum starfsmanna á rekstrinum enda snýst deilan nú einungis um hvort sannvirði hafi verið greitt fyrir eignirnar sem keyptar voru. Verðmat skiptastjóra byggir á rekstrarafkomu félagsins á góðærisárunum 2005-2008. Kaup starfsmanna á rekstrinum byggðu á stöðu félagsins í september 2010. Um réttmæti kaupverðsins verður nú tekist á fyrir dómstólum. Capacent kvíðir ekki niðurstöðunni.