Fjármálafyrirtækið Capacent Fjárfestingaráðgjöf hefur skipt um nafn og heitir núna Centra Fyrirtækjaráðgjöf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þar segir:

„Félagið var stofnað í ársbyrjun 2009 af Capacent til að sinna verkþáttum sem krefjast starfsleyfis samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og starfaði fyrsta árið undir nafninu Capacent Glacier. Félagið hefur verið skuldlaust frá stofnun.

Engin eignatengsl eru lengur á milli Capacent og Centra og er Centra að stærstum hluta í eigu starfsmanna. Náið samstarf er eftir sem áður á milli félaganna og verður starfsemi Centra áfram til húsa í Borgartúni 27.

Sigurður Harðarson framkvæmdastjóri Centra segir: „Nafnabreytingin er í framhaldi af stefnumótun félagsins og til þess fallin að draga fram áherslur þess sem framsækins fjármálafyrirtækis. Enn fremur endurspeglar hún þá staðreynd að eignatengsl við Capacent rofnuðu með öllu síðastliðið haust.“

Centra hefur starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki og starfar samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Fyrirtækið sérhæfir sig í fjárfestingaráðgjöf, óháðum verðmötum, umsjón með útgáfu hlutabréfa og skuldabréfa, ráðgjöf til fyrirtækja um uppbyggingu eigin fjár, ráðgjöf og þjónustu varðandi samruna og yfirtöku fyrirtækja ásamt ráðleggingum í tengslum við viðskipti með fjármálagerninga.

Ráðgjafar Centra þekkja vel til íslenskra fyrirtækja, starfsemi þeirra og umhverfis og hafa haft umsjón með fjölda fjármálaverkefna þeim tengdum hér á landi og erlendis. Þeir hafa unnið með flestum stórum fyrirtækjum á Íslandi við verkefni, s.s. kaup og sölur eigna, fjármögnun, virðisrýrnunarpróf, álitsgerðir, samruna og verðmöt.“