Capacent hefur gefið út uppfært verðmat á fasteignafélaginu Eik í kjölfar sex mánaða uppgjörs fyrirtækisins og metur gengi hlutabréfa þess á 7,8 krónur á hlut. Skráð gengi hlutabréfa félagsins í kauphöllinni stendur hins vegar í 7,3 krónum og er virðismatsgengið því rúmlega 7% hærra.

Rekstur Eikar á fyrri helmingi ársins skilaði fyrirtækinu um 1.971 milljón króna og var reksturinn nokkuð yfir væntingum Capacent. Fram kemur í verðmatinu að hluthafar hafi fengið góða ávöxtun í hlutafjárútboði félagsins í apríl síðastliðnum og hún nemi um 7%. Ef markaðsgengið væri hins vegar jafnt verðmati Capacent væri ávöxtunin nú 15%.

Capacent segir að helstu verkefni stjórnenda Eikar á næstunni séu að bæta virðisútleiguhlutfallið og endurfjármagna 3,1 milljarðs króna skuld ásamt því að halda áfram uppbyggingu eignasafns fyrirtækisins.