Samkvæmt nýju verðmati Fjármálaráðgjafar Capacent á Regin, sem byggir á hálfsársuppgjöri félagsins, ætti gengi félagsins að vera 16,4 krónur á hlut. Gengi félagsins á markaði er um 16,7 krónur á hlut. Capacent kemst því að þeirri niðurstöðu að verðmatið sé á pari við viðskiptagengið á markaði.

Í verðmati Regins segir að nýting eignasafns sem fyrirtækið keypti nýlega frá Íslandsbanka sé slök, eða um 54 prósent. Nýtingarhlutfall Regins fer þar með niður, eða úr 97% í 91%. Í verðmatinu segir þó að miklar væntingar séu til safnsins. Capacent segir að fjárflæði vegna Fastengiseigna valdi nokkurri óvissu, en óljóst sé hversu miklar fjárfestingar fylgi því að koma safninu í leiguhæft ástand miðað við væntingar Regins um leigugjald.

Veltufjárhlutfallið hafi hækkað

Capacent segir að þar sem fjárfestingar hafi aukist meira en sem nemur tekjuvexti hafi arðsemi fjárfestingareigna lækkað. Stjórnendur félagsins vinni að því að losa eignir sem ekki henti eignasafni Regins og bæta nýtingarhlutfall þeirra eigna sem félagið hyggst halda til lengri tíma.

Í verðmatinu segir að lágt veltufjárhlutfall endurspegli örar fjárfestingar og fjármögnun þeim tengdum. Veltufjárhlutfallið á miðju ári hafi verið 0,24, en hafi síðan verið bætt með endurfjármögnun langtímaskulda og standi nú í 0,47. Matsbreyting fjárfestingareigna sé nokkurn veginn í takt við hækkun almenns verðlags.

Eigið fé Reita er metið á 23.376 milljónir króna og er verð hvers hlutar metið 16,4 krónur.