Ráðgjafafyrirtækið Capacent hættir starfsemi á Íslandi, en þetta kemur fram í fréttatilkynningu félagsins. Um fimmtíu manns störfuðu hjá fyrirtækinu.

Halldór Þorkelsson, framkvæmdastjóri Capacent á Íslandi, segir að aðstæður vegna Covid hafi haft veruleg áhrif á rekstur félagsins og óljóst hvenær aðstæður muni batna. Því hefur stjórn félagsins óskað eftir gjaldþrotaskiptum frekar en að halda rekstri áfram með óhjákvæmlegri skuldasöfnun.

Sjá má yfirlýsinguna í heild sinni hér að neðan.

Eftir áratuga þjónustu við glæstan hóp viðskiptavina neyðist Capacent til þess að binda enda á starfsemi sína á Íslandi. Árið fór vel af stað hjá félaginu en þær aðstæður er mynduðust í atvinnulífinu vegna Covid-19 fóru fljótt að segja til sín í rekstri félagsins þar sem tekjur féllu verulega.

Eftir þrotlausa vinnu síðustu vikur við að bjarga félaginu þar sem starfsmenn lögðust á eitt er staðan því miður sú að rekstrargrundvöllur félagsins er erfiður og erfitt að segja til um hversu hratt verulegur bati verður þar á. Stjórn félagsins hefur af þessum sökum í dag óskað eftir gjaldþrotaskiptum frekar en að freista þess að halda áfram rekstri með óhjákvæmlegri skuldasöfnun.

Capacent þakkar öllum viðskiptavinum sínum fyrir farsælt samstarf á undanförnum árum.
Kveðja, Halldór