Capacent telur að verð félagsins Össur á markaði sé of hátt. Þrátt fyrir það telur greiningaraðilinn að Össur hafi skilað fjárfestum góðum arði. Í nýju verðmati Capacent á Össuri, sem að Fréttablaðið hefur undir höndum og fjallar um, er Össur metinn á 1.525 milljónir Bandaríkjadala sem jafngildir 158,6 milljörðum króna og verðmatsgenginu 369 krónur á hlut. Gengi bréfa í félaginu var 470 krónur þegar verðmatið var gert, 2. ágúst, og er því matið um 21% undir markaðsgengi.

Greinendur Capacent eru á því að uppgjör Össurar á fyrstu sex mánuðum ársins hafa valdið vonbrigðum. Þeir benda á að rekstraráætlun félagsins hafi verið endurskoðuð. Félagið gerir ráð fyrir að EBITDA-hlutfallið verði átján til nítján prósent, en ekki nítján til tuttugu prósent eins og áður var gert ráð fyrir. Einnig hafi innri vöxtur Össurar á Ameríkumarkaði verið takmarkaður eða um eitt prósent. Einnig benda þeir á að sala stuðningsvara hafi dregist saman nær samfellt frá árinu 2014.

Greiningaraðilar taka þó fram að rekstur Össurar hafi verið sterkur og EBITDA-hlutfallið hátt eða um nítján prósent að meðaltali á árunum 2010 til 2016. Þá geri Capacent ráð fyrir því að hlutfallið verði komið í 20,1% á næsta ári og 20,8% árið 2021. Greinendur Capacent segja enn fremur að framlegðin sé há markaðnum fyrir framleiðslu stoð og stuðningstækja, og því sé líklegt að að fleiri vilji „komast að veisluborðinu“.

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)