Kristinn Tryggvi Gunnarsson forstjóri Capacent og Svafa Grönfeldt rektor Háskólans í Reykjavík (HR) undirrituðu í dag, 14. ágúst, samning um víðtækt samstarf á sviði stjórnendaþjálfunar og -fræðslu. Í samningnum felst að aðilar munu sameina krafta sína á námskeiðum undir merkjum Opna háskólans.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá HR.

Þar segir að markmið samningsins er að auka framboð á sviði sí- og endurmenntunar og veita íslensku atvinnulífi hágæða fræðslu og þjálfun. Þá segir að báðir aðilar hafi langa reynslu af slíkri þjálfun og samningurinn sameini sterkan akademískan bakgrunn háskólafólksins og hagnýta reynslu ráðgjafa Capacent.

Svafa Gröndfeldt, rektor HR sagði við undirritun samningsins í morgun að samstarfið tengi saman á nýjan hátt akademíu og atvinnulíf og opni ný tækifæri til að þjóna íslenskum fyrirtækjum með öflugri hætti en áður hefur þekkst.

„Þarna renna saman tugir reynslumikilla þjálfara úr íslensku atvinnulífi saman við stofnun sem hefur áralanga reynslu af því að bjóða íslensku atvinnulífi þá bestu þjálfun sem völ hefur verið á.“ sagði Svafa í morgun.

„Samstarfið við HR opnar okkur leið til að skerpa enn frekar á fræðsluframboði okkar og stuðlar með því að auknum árangri viðskiptavina okkar. Einnig getum við nú boðið einingabært nám í samstarfi við HR en í því felast mörg tækifæri.“ segir Kristinn Tryggvi Gunnarsson forstjóri Capacent um samninginn.

Framkvæmdastjóri Opna háskólans er Guðrún Högnadóttir.