Greiningardeild Capacent segir jafnmiklar líkur á stýrivaxtalækkun og óbreyttum stýrivöxtum á vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans á morgun. Í skuldabréfayfirliti Capacent segir að á síðustu mánuðum hafi verðbólga hjaðnað hratt og það verðbólguskot sem Seðlabankinn hafi spáð í vel á annað ár breyst í verðhjöðnunarskot.

„Aðhald peningastefnunnar hefur því aukist mikið og er raunvaxtamunur milli Íslands og helstu viðskiptalanda kominn vel yfir 4%. En raunvextir á 10 ára ríkisskuldabréfum í Evrópu eru neikvæðir sem nema 1,15%. Þegar bankinn tekur ákvörðun um vexti þarf hann að horfa til þeirra skilaboða sem hann sendir frá sér til markaðarins. Skilaboðin til fjárfesta eru ekki traustvekjandi ef hann telur að raunvextir á milli Íslands og nágrannalandanna þurfi að vera vel yfir 4% til að halda fjármagni í landinu. Raunvaxtamunurinn nú er eins og hann var mestur á dögum víns og rósa þegar fjármagn flæddi stjórnlaust til landsins,“ segir í yfirlitinu.

Þar segir jafnframt að með því að halda óbreyttum stýrivöxtum og raunvaxtamun vel yfir 4% grafi Seðlabankinn undan trúverðugleika sínum og undirstriki óöryggi bankans gagnvart losun gjaldeyrishafta. Öll rök hnígi með vaxtalækkun og bendi flest til þess að bankinn hafi ofmetið líkur á verðbólgu og áhrif kjarasamninga á verðlag. „Skynsamlegast væri hjá bankanum að viðurkenna ofmat og lækka vexti,“ segir jafnframt í skuldabréfayfirliti Capacent.