Vegna góðrar ávöxtunar undanfarin ár þarf ekki að skerða lífeyrisgreiðslur frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna (LV) þrátt fyrir neikvæða afkomu árið 2008 og varúðarafskrift skuldabréfa innlendra fyrirtækja. Meginhluti eigna sjóðsins er bundinn í traustum eignum sem ætla má að gefi góða ávöxtun þegar til lengri tíma er litið.

Stjórn LV ákvað að fela Capacent ráðgjöf að vinna úttekt á LV. Verkið unni ráðgjafarnir Bjarni Snæbjörn Jónsson, dr. Birgir Örn Arnarson, dr. Haraldur Óskar Haraldsson og dr. Hrafnkell Kárason.

Í tilkynningu kemur fram að niðurstöður Capacent eru almennt jákvæðar fyrir LV.  Engin athugasemd er gerð við vinnubrögð sjóðsins, fjárfestingarstefnu hans, innri- og ytri endurskoðun eða tryggingafræðilegt uppgjör sjóðsins. Reikningar LV eru endurskoðaðir af  Pricewaterhouse Coopers.

Niðurstaða endurskoðunarinnar hefur, án undantekninga, verið sú að ársreikningurinn gefi glögga mynd af afkomu sjóðsins í samræmi við lög og settar verklagsreglur. Vinnubrögð stjórnenda LV standast fyllilega þær kröfur sem til þeirra eru gerðar og rekstrarkostnaður lífeyrissjóðsins er lægri en almennt gerist hjá sambærilegum sjóðum segir í tilkynningu.