Capital Group seldi 680 þúsund hluti í Marel, eða um 0,09% hlut, fyrir tæplega 620 milljónir króna á mánudaginn, ef miðað er við dagslokagengið. Capital Group er þriðji stærsti hluthafi Marels og fer númeð 4,93% hlut eftir söluna í byrjun vikunnar, að því er kemur fram í flöggunartilkynningu .

Einungis tveir hluthafar Marels eiga nú meira en 5% hlut í fyrirtækinu. Fjárfestingafélagið Eyrir Invest er stærsti hluthafinn með fjórðungshlut í Marel. Feðgarnir Þórður Magnússon og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, fara með 38,5% hlut í Eyri. Lífeyrissjóður verslunarmanna (LIVE) er næst stærsti hluthafi Marels en sjóðurinn átti 7,3% hlut í byrjun árs.

Capital Group er næst stærsti hluthafi Íslandsbanka, á eftir ríkissjóði, með 3,85% hlut, að markaðsvirði 9,2 milljörðum króna. Sjóðurinn Capital World Investors, í stýringu hjá Capital Group, fékk úthlutað 76.923.077 hlutum í Íslandsbanka sem hornsteinsfjárfestir áður en hlutafjárútboð Íslandsbanka hófst í júní.