Carbfix og norska fyrirtækið Removr hafa gert með sér forsamkomulag sem miðar að því að Carbfix bindi CO2 frá lofthreinsistöð sem Removr áformar að byggja á Íslandi. Árleg afkastageta hennar yrði um 100.000 tonn af CO2 en um er að ræða fyrstu stóru lofthreinsistöð Removr.

Removr mun í fyrstu byggja minni lofthreinsistöð hér á landi sem gæti tekið til starfa árið 2025 með 2.000 tonna árlega afkastagetu. Vonir standa svo til að stærri lofthreinsistöðin gæti tekið til starfa tveimur árum seinna.

„Heimurinn fjarlægist markmið sín um kolefnishlutleysi. Lofthreinsun með kolefnisbindingu (e. DACCS) mun gegna lykilhlutverki í að snúa þeirri þróun við. Við fögnum samstarfinu við Carbfix, sem gerir okkur kleift að taka hröð skref í átt að markmiðum okkar um vöxt,“ segir Einar Tyssen, forstjóri Removr.

Carbfix hefur þróað aðferð til að binda CO2 í bergi neðanjarðar á innan við tveimur árum og hefur beitt tækninni frá árinu 2012. Aðferðin flýtir náttúrulegum ferlum í hvarfgjörnu basalti og veitir þannig varanlega bindingu með minni tilkostnaði en margar aðrar lausnir.

„Samstarf Carbfix og Removr er nýtt og áþreifanlegt skref í uppbyggingu lofthreinsunar með kolefnisbindingu á stærri skala en hingað til. Við hlökkum til að þróa þetta samstarf enn frekar,“ segir Edda Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix.