Fyrirtækið Carbon Recycling International hefur verið valið Vaxtarsproti ársins sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis. Ferðamála-, iðnaðar-, nýsköpunar- og dómsmálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, afhenti Vaxtarsprotann í morgun í Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal.

Carbon Recycling International var stofnað árið 2006 en það rekur verksmiðju í Svartsengi sem framleiðir metanól úr koltvísýringi og vetni, sem er nýtt innanlands og á Evrópumarkaði. Fyrirtækið þróar jafnframt og selur heildstæða tæknilausn til að framleiða vistvænt eldsneyti og efnavöru fyrir almennan markað. Tæknin er afrakstur mikilla rannsókna og þróunar og er vernduð með einkaleyfi. Segja má að fyrirtækið hafi rutt brautina á þessu sviði en verksmiðjan í Svartsengi var sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Rekstrartekjur fyrirtækisins jukust um 193% á milli áranna 2017 og 2018, en þær fóru úr rúmum 76 milljónum króna í 225 milljónir.

Tvö önnur sprotafyrirtæki, Taktikal og Kerecis, hlutu einnig viðurkenningar fyrir vöxt í veltu en Carbon Recycling International sem sýndi mestan hlutfallslegan vöxt auk þess að uppfylla önnur viðmið dómnefndar fær nafnbótina Vaxtarsproti ársins. Taktikal sérhæfir sig í ráðgjöf og þjónustuhönnun fyrir rafrænar undirritanir og aðra traustþjónustu en sérfræðingar þess hafa þróað lausn sem auðveldar þjónustuveitendum innleiðingu og rekstur á rafrænum undirskriftum á sveigjanlegri hátt. Kerecis er lækningavörufyrirtæki sem notar roð til að græða sár og styrkja líkamsvefi, til dæmis við meðhöndlun á sykursýkissárum, endurgerð á brjóstum og til viðgerðar á kviðslitum.

Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Þetta er í 13. skiptið sem viðurkenningarnar eru veittar en tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja. Í dómnefnd voru Gísli Hjálmtýsson fyrir Háskólann í Reykjavík, Lýður Skúli Erlendsson fyrir Rannsóknarmiðstöð Íslands, Salóme Guðmundsdóttir fyrir Samtök sprotafyrirtækja og Sigríður Mogensen fyrir Samtök iðnaðarins.