Fragtflugfélagið Cargolux sem áður var að stærstum hluta í eigu Íslendinga á nú við mikinn vanda að glíma eftir samfelldan þriggja ára taprekstur. Er nú reynt að bjarga rekstrinum með útgáfu nýrra hlutabréfa upp á 200 milljónir dollara. Nettó tap félagsins á árinu 2009 var 153 milljónir dollara eða nærri þrefalt meira en 2008 þegar félagið tapaði 61 milljón dollara.

Tekjur félagsins drógust saman um 34% eða í 1,3 milljarða dollara á árinu 2009. Reyndar var árið 2009 að öllum líkindum það versta í sögu fragtflutninga með flugi samkvæmt yfirlýsingu forsvarsmanna Cargolux sem er stærsta fragtflutningaflugfélag Evrópu.

Í yfirlýsingunni kemur fram að vörumagn með flugi minnkaði um rúmlega 20% á árinu 2009 miðað við árið áður. Það leiddi til offramboðs af flutningarými með alvarlegum afleiðingum fyrir alla þátttakendur á þessum markaði. Cargolux er þar engin undantekning.

Til að bregðast við minnkandi flutningum var dregið tímabundið úr flutningagetu á öllum leiðum og hætt að fljúga á fjölmarga áfangastaði. Þar á meðal voru Istanbul, Toranto, Helsinki og Cairo. Mest allt árið 2009 var Cargolux með 16 þotur í rekstri af gerðinni Boeing 747 400F. Á fjórða ársfjórðungi voru þó tvær af þessum þotum leigðar til UPS samkvæmt samningi sem gerður hafði verið fyrir samdráttinn á markaðnum. Í staðinn tók Cargolux  þrjár 747-200F þotur á leigu.

Cargolux átti 13 nýjar Boeing 747-8 þotur í pöntun frá framleiðanda sem áttu að leysa eldri þotur af hólmi. Þær fara nú að koma inn í reksturinn, en í raun á versta tíma. Þá varð breyting á eignarhaldi á félaginu á árinu 2009 þegar Sairlines sem er hluti af hinu gjaldþrota Swissair Group seldi 33,7% hlut sinn í félaginu til annarra hluthafa, þ.e. Luxair, BCEE og SNCI og til Lúxemborgarríkis sem er nýr beinn hluthafi. Ríkið hefur þó alla tíð átt hlut í Cargolux í gegnum ríkisflugfélagið Luxair.

Cargolux reynir nú að endurfjármagna reksturinn með útgáfu nýrra hlutabréfa upp á 200 milljónir dollara. Vonast menn til að þannig verði hægt að tryggja rekstur félagsins eftir þriggja ára samfelldan taprekstur.