Hollenska skipafélagið Cargow B.V., sem Bjarni Ármannson á stærstan hlut í, hefur náð samkomulagi um kaup á öllu hlutafé íslenska flutningafyrirtækisins Thorship (Thor Shipping efh.).

Ragnheiður Lára Jónsdóttir, Bjarni Hjaltason og Ragnars Jóns Dennissonar, eigendur Thorship, verða áfram í hluthafahópnum og verður flutningaþjónusta Thorship starfrækt undir óbreyttum merkjum sem dótturfélag skipafélagsins. Ragnheiður Lára, Bjarni og Ragnar eiga einnig KB Netherlands BC sem á hlut í Cargow B.V.

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt sameininguna og er stefnt að því að ljúka samþættingu á starfsemi félaganna á næstu dögum. „Um leið hefur nýr grunnur verið lagður að öflugri flutningsþjónustu til og frá landinu og styrkum stoðum rennt undir vandaða þjónustu við stærri sem smærri inn- og útflytjendur,“ segir í fréttatilkynningu.

Samanlögð velta Cargow og ThorShip á þessu ári er áætluð um sjö milljarðar króna. Í flota félaganna eru sex skip með ríflega 60 þúsund tonna burðargetu og hafa þau vikulega viðkomu í helstu höfnum sínum. Samanlagt flutningsmagn árið 2020 var um 18.500 gámaeiningar og flutningur fyrir íslenska stóriðju nam um 1,4 milljónum tonna. Starfsmenn félaganna eru á fjórða tug talsins og viðskiptavinir tæplega eitt þúsund.

Höfuðstöðvar Cargow eru í Rotterdam í Hollandi en starfsemin á Íslandi verður rekin í húsakynnum Thorship við Selhellu í Hafnarfirði. Framkvæmdastjóri verður Stefán Héðinn Stefánsson. Rekstrar- og fjármálastjóri félaganna verður Ragnar Jón Dennisson. Bjarni Ármannsson, Bjarni Hjaltason og Tómas Már Sigurðsson sitja í stjórn Cargow, samkvæmt heimasíðu skipafélagsins.

Samstarf félaganna tveggja er sagt hafa lengi verið mikið. Frá byrjun grundvölluðu þau bæði starfsemi sína á flutningum fyrir áliðnaðinn með Ísland, Noreg og meginland Evrópu sem viðkomustaði.