Mexíkóski auðjöfurinn Carlos Slim er ríkasti maður heims, samkvæmt samantekt Bloomberg-fréttaveitunnar. Slim er 72 ára og er auður hans metinn á 68,5 milljarða dala, jafnvirði tæpra 8.700 milljarða íslenskra króna. Til samanburðar er það rúm fjórföld landsframleiðsla Íslands. Auður Slims hefur aukist um 11% frá áramótum, samkvæmt útreikningum Bloomberg.

Á hæla Slim eru briddsfélagarnir Bill Gates, stofnandi Microsoft, og ofurfjárfestirinn aldraði, Warren Buffett.

Bloomberg-fréttaveitan hefur ýtt úr vör þjónustu sem birtir síðdegis á hverjum degi upplýsingar um eignir auðugustu einstaklinga í heimi. Tuttugu auðmenn eru á listanum. Eðli málsins samkvæmt má nefna þjónustu Bloomberg Auðmannavísitölu Bloomberg (e. The Bloomberg Billionaires Index). Auður fólksins er reiknaður út frá breytingum á hlutabréfamörkuðum og ýmsum öðrum efnahagslegum þáttum. Þeir sem hafa áhuga á heimi hinna ríku geta smellt m.a. á hverjum degi hér .

Þetta eru fimm ríkustu einstaklingar í heimi, aldur er í sviga, helsta fyrirtæki þeirra og auður í Bandaríkjadölum:

  1. Carlos Helú Slim (72) - America Movil - 68,5 ma
  2. Bill Gates (56) - Microsoft - 62,4 ma
  3. Warren Buffett (81) - Berkshire Hathaway - 43,8 ma
  4. Ingvar Kamprad (85) - Ikea - 42,5 ma
  5. Bernard Arnault (63) - LVMH Moet Hennessy Louis Vuitton - 42,3 ma