Ríkasti maður heims, mexíkóinn Carlos Slim, hefur ákveðið að fjárfesta í breska tæknifyrirtækinu Shazam fyrir um 40 milljónir dala, andvirði um fimm milljarða króna. Þekktustu vörur Shazam eru þrjú smáforrit fyrir snjallsíma sem gera notendum kleyft að finna nöfn og höfunda dægurlaga með því að spila þau fyrir forritið.

Í frétt The Register kemur fram að þetta sé í þriðja skiptið sem fyrirtæki Slim, América Móvil, fjárfestir í evrópsku fyrirtæki en áður hafði það veitt sex milljörðum dala í hollenska símafyrirtækið KPN og hið austurríska Telekom Austria.

Shazam er nú að þróa þjónustu sem myndi gera notendum kleyft að leita að lögum sem koma fram í auglýsingum og beina þeim svo á heimasíðu viðkomandi fyrirtækis þar sem notandinn myndi eftir atvikum fá afslátt af vörum þess. Fjármagnið frá Slim verður m.a. notað til að kosta þessa þróun.