Mexíkóinn Carlos Slim ætlar ekki að gefa hluta auðæfa sinna eftir dauðdaga líkt og Bill Gates og Warren Buffet. Slim er ríkasti maður heims samkvæmt Forbes. Hann telur það mikil mistök að hlutur stofnenda fyrirtækja líkt og Apple og Microsoft verði seldur eftir dauðdaga þeirra og peningurinn settur í góðgerðarmál.

Meðal nýlegra fjárfestinga Slim eru hlutur í New York Times og námufyrirtæki í Mexíkó. Hans helsta eign er stærsta símfyrirtæki Mexíkó.

Slim ræðir um ástandið í Mexíkó í viðtali við CNBC fréttastofu í dag. Ástandið í landinu er afar brothætt vegna átaka á milli eiturlyfjaklíka og lögreglur. Yfir 30.000 manns hafa látið lífið í átökum á síðustu þremur árum. Slim segir að það komi ekki til greina að hann yfirgefi landið, þrátt fyrir að eiga glæsilega íbúð í New York. Hann segir íbúðina alltof stóra og sé eingöngu hugsuð sem fjárfesting.

Slim lætur átökin ekki á sig fá og fjárfestir fyrir mikla fjármuni í Mexíkó. Hann segir að þeir sem fjárfesti ekki muni tapa og bendir á að íbúar séu um 110 milljónir og að efnahagur sé í vaxtarferli.