Carly Fiorina, fyrrverandi framkvæmdastjóri Hewlett-Packard, tilkynnti í morgun að hún hygðist bjóða sig fram sem forsetaefni Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum fyrir komandi kosningar. Wall Street Journal greinir frá þessu.

„Ég held að ég sé besti kosturinn í starfið af því að ég skil hvernig hagkerfið virkar. Í skil heiminn, hverjir eru í honum og hvernig heimurinn virkar,“ sagði Fiorina í þættinum Good Morning America, þar sem hún ræddi framboð sitt nú í morgun.

Fiorina var rekin frá Hewlett-Packard árið 2005. Hún er 60 ára gömul og kveðst vera íhaldssöm í skoðunum og leggur jafnframt mikla áherslu á reynslu sína úr viðskiptaheiminum. Hún er eina konan meðal repúblikana sem tilkynnt hefur um framboð sitt.