Bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Carlyle Group hafði betur í baráttunni um meirihlutaeign myndasafnsins Getty Images og kaupir það á 3,3 milljarða dala, jafnvirði tæpra 400 milljarða íslenskra króna. Getty Images er einn stærsti myndabanki heims á netinu. Það er sjóðurinn Hellman & Friedman sem seldi myndasafnið. Sjóðurinn keypti það fyrir 2,4 milljarða dala árið 2008.

Í netútgáfu breska dagblaðsins Financial Times segir í dag að verðmiðinn sé í lægri kantinum. Upphaflega var vonast til þess að fá fjóra milljarða dala fyrir myndabankann. Hann var nýverið lækkaður í 3,6 milljarða dala.

á meðal annarra hluthafa myndasafnsins eru Jonathan Klein, forstjóri Getty Images og Mark Getty, sem stofnaði myndabankann í félagi við Klein árið 2006. Getty er jafnframt stjórnarformaður eignarhaldsfélags Getty-fjölskyldunnar. Hann er sonur breska auðkýfingsins sir John Paul Getty og afabarn bandaríska olíuauðjöfursins J. Paul Getty sr., sem um tíma var einn af auðugust mönnum í heimi.