Leitarvélarrisinn Yahoo! hefur ráðið Carol Bartz sem nýjan forstjóra félagsins og mun hún taka við starfinu af Jerry Yang, annars stofnenda Yahoo!.

Bartz er tölvu- og hugbúnaðargeiranum ekki alls ókunn því hún starfaði áður hjá hugbúnaðarfyrirtækisins  Autodesk, þar sem hún var forstjóri í 14 ár  þangað til hún varð stjórnarformaður félagsins árið 2006.

Jerry Yang, fráfarandi forstjóri og sem fyrr segir annar stofnandi Yahoo! hefur verið nokkuð umdeildur í störfum sínum síðustu mánuði.

Hann gerði stóran hóp hluthafa nokkuð reiðan þegar hann beitti sér fyrir því að hafna yfirtökutilboði Microsoft upp á 47,5 milljarða Bandaríkjadali eða því sem nemur 33 dölum á hvern hlut. Micorsoft gerði síðan annað tilboð eftir að hópur hluthafa hafði lýst yfir óánægju sinni með ákvörðun Yang, sem þá fór fyrir hópi meirihlutaeigenda.

Í dag er gengið á Yahoo! 12 dalir á hvern hlut.

Það sem gerst hefur síðan þá er að Yang fer ekki lengur fyrir meirihlutahópi hluthafa og en fjölmargir úr hans hóp hafa skipt um lið, ef svo má að orði komast. Á hlutahafafundi í nóvember voru honum settir úrslitakostir, annað hvort yrði reynt að semja aftur við Microsoft eða hann yrði rekinn.

Yang náði málamiðlun við hluthafa, hann myndi segja upp störfum og leitað yrði að nýjum forstjóra sem nú er búið að finna.

Áður Bartz hóf störf hjá Autodesk starfaði hún hjá Sun Microsystems í níu ár og varð að lokum forstjóri fyrirtækisins.

Hún er ein af 50 áhrifamestu viðskiptakonum í Bandaríkjunum að mati Forbes og á lista yfir 30 virðingaverðustu forstjóra að mati tímaritsins Barron.

Talið er líklegt að undir hennar stjórn muni félagið að lokum verða selt til Microsoft, enda sé vilji fyrir sölunni að hálfu hluthafa.