Carsten Valgreen, fyrrverandi aðalhagfræðingur Danske Bank, segir að best færi á því að óháðir og jafnvel erlendir aðilar stýrðu Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Þannig mætti auka trúverðugleika þessara stofnana.

Valgreen, sem nú er staddur á Íslandi, segir að koma þurfi í veg fyrir fólksflótta frá landinu vegna kreppunnar. Hætta sé á því að unga fólkið flytjist af landi brott verði ekkert að gert.

Eitt af því sem stjórnvöld þurfi að gera, til að koma í veg fyrir það, sé að sýna fram á grundvallar veikleika kerfisins. Því næst þurfi að gera ráðstafanir til að bæta þá. Fólk þurfi að sjá að gera eigi endurbætur og byrja eigi upp á nýtt.

Veikleikarnir hafi birst í því að enginn - hvorki stjórnmálamenn né eftirlitsaðilar- hafi gripið í taumana og stöðvað óhóflegan vöxt bankakerfisins. Til að bregðast við þessu þurfi að efla sjálfstæði Seðlabankans og FME.

Stjórnendur þessara stofnana ættu að vera aðilar sem ekki ættu hagsmuna að gæta í íslensku stjórnmála- eða efnahagslífi.

Enginn vildi stöðva partíið

„Hluti af vandamálinu var að allir voru í raun þátttakendur í partíinu," sagði hann. Af þeim ástæðum vildi enginn ríða á vaðið og krefjast þess að partíinu myndi ljúka. „Sá hinn sami hefði verið barinn niður," segir hann.

Sjálfur skrifaði Valgreen umdeilda grein á árinu 2006, Geysir Crisis, þar sem hann færð rök fyrir því að alvarleg fjármálakreppa væri raunhæfur möguleiki. Hlaut hann mikla gagnrýni fyrir hér á landi.

Þegar hann er spurður hvort honum hafi þá fundist sem hann væri leiðinlegi maðurinn í partíinu sem vildi ljúka því, segist hann hafa hugsað sem svo að það væri gott að hann byggi ekki í Reykjavík - því óþægilegt hefði verið að mæta gagnrýninni.

Nándin væri með öðrum orðum svo mikil á Íslandi að erfiðara væri að benda á það sem miður væri og betur mætti fara. Sú staðreynd endurspeglaði á sama tíma veikleika kerfisins.