Magnús Carlsen hefur komið sér þægilega fyrir á toppi stigalista FIDE, alþjóða skáksambandsins. Á janúarlistanum er Carlsen með 2835 Elo-stig, en Levon Aronian frá Armeníu er nú í 2. sæti með 2805 stig. Rússneski björninn Kramnik er í 3. sæti með 2801 stig, en heimsmeistarinn Anand er dottinn niður í 4. sæti með 2799 stig. Indverska tígrisdýrið hefur ekki verið í miklum vígahug síðustu misserin, en Anand á titil að verja á þessu ári.

Fabiano Caruano
Fabiano Caruano
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hann mætir Gelfand frá Ísrael, en hann situr um þessar mundir í 16. sæti stigalistans. Gelfand er satt að segja ekki mjög spennandi kandídat, og hætt er við að jafnteflisdraugurinn bíði með mestri óþreyju eftir einvígi þeirra Anands.

Við ættum frekar að beina sjónum að piltinum sem nú er kominn í 17. sæti stigalistans: Fabiano Caruano er fæddur 1992 og stigahæstur allra ungmenna í heiminum, 20 ára og yngri. Caruano er Ítali, alinn upp í Bandaríkjunum, og er langbesti skákmaður í sögu Ítala. Hann hefur, þrátt fyrir ungan aldur, sigrað fjórum sinnum á ítalska meistaramótinu. Þessi ungi snillingur mætir til leiks á Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið, sem haldið verður í Hörpu í mars.

Reykjavíkurskákmótið var fyrst haldið 1964 og er með elstu og virtustu skákmótum í heiminum. Gaman verður að fylgjast með Fabiano leika listir sínar í Hörpu. Þar verða ekki bara ofurstórmeistarar: Reykjavíkurmótið er öllum opið, sama hvar þeir standa á blessuðum stigalistanum.