Fidel Castro, fyrrverandi forseti Kúbu, lést í nótt, níræður að aldri. Þetta kemur fram á vefsíðu BBC, en Raul Castro, bróðir Fidel, flutti fréttirnar á ríkissjónvarpi landsins.

Castro er sá pólitíski leiðtogi sem hefur setið hvað lengst á valdastól á 20. öldinni, án þess að bera konunglegan titil. Castro var forseti Kúbu í um það bil 50 ár og var forsprakki kommúnismans þar í landi.

Árið 1959 tók hann við stjórnartaumunum þegar hann, ásamt stuðningsmönnum sínum veltu herstjóranum Fulgencio Batista af valdastóli. Tveimur árum síðar var hann búinn að reisa kommúnískt ríki, sem studdi Sovétríkin. Sá stuðningur rann illa ofan í stjórnmálamenn í Bandaríkjunum.

Raul Castro tók formlega við stjórn árið 2008, en hafði tímabundið tekið við stjórn árið 2006. Castro fór þá að halda sig utan sviðsljóssins, en seinasta opinbera framkoma hans var í apríl á þessu ári þegar hann hélt ræðu á síðasta þingdegi Kommúnistaflokksins. Þar lagði hann áherslu á að hugmyndir kommúnista væru enn í gildi og skiptu máli fyrir sigur þjóðarinnar.

Þrátt fyrir að Raul Castro hafi lýst yfir þjóðarsorg, virðast ekki allir vera miður sín. Fagnaðarlæti hafa til að mynda brotist út í Bandaríkjunum, einkum í Miami, þar sem margir Kúbverjar búa, sem flúðu undan klóm kommúnismans.

Hagvöxtur á Kúbu var 4,3% árið 2015, en verg landsframleiðsla á mann (PPP) nam 19.950 dölum árið 2013. Á Kúbu búa rúmlega 11 milljónir íbúa, verðbólga er um 4,5% og vaxtastigið er í 2,25%.