Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP segir að aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að styðja við nýsköpun, þar sem þak á endurgreiðslur vegna nýsköpunarverkefna var hækkað tímabundið í tvö ár, hafi virkað sem hvatning fyrir CCP til aukins vaxtar á Íslandi. „Við erum um þessar mundir að skoða ýmis ný tækifæri sem gætu leitt af sér aukningu á starfsemi CCP á Íslandi. Líkt og í þeim stóru kvikmyndaverkefnum sem hingað hafa komið síðustu ár þá værum við ekki að gera það nema umgjörðin sem hagkerfið býður upp á til nýsköpunar sé samkeppnishæf við önnur lönd þar sem við erum með starfsemi. Stjórnvöld á Íslandi hafa nú tekið stórt skref í því að koma landinu á kortið hvað nýsköpun varðar og því fögnum við mjög. Þetta mun leiða til þess að það koma stór nýsköpunarverkefni hingað til lands þar sem mjög mikilvægt er að geta sótt um endurgreiðslur vegna kostnaðar við rannsóknir og þróunarstarf, eins og sýnt hefur sig að virkar hvað kvikmyndaverkefnin varðar. Við erum með slík alþjóðleg verkefni á teikniborðinu og það liggur fyrir að þessi breyting mun skila árangri við að skapa ný hálaunastörf í tæknigeiranum hér heima,“ segir Hilmar.

Sjá einnig: Gætu orðið af 27 milljörðum króna

CCP flutt í Vatnsmýrina CCP lauk við að flytja frá Granda í Grósku, nýjar höfuðstöðvar í Vatnsmýrinni á föstudaginn fyrir rúmri. Til að byrja með verður einungis þriðji hver starfsmaður í húsinu vegna sóttvarnareglna en nær allir starfsmenn CCP hafa unnið heima í heimsfaraldrinum Þá mun félagið hefja tilraunaverkefni þar sem starfsmönnum býðst að vinna heima einn dag í viku. Gangi það vel er stefnt að algjörum sveigjanleika varðandi staðsetningu vinnuaðstöðu þegar fram líða stundir. Gróska verður alls um 17.500 fermetrar og mun hýsa margs konar nýsköpunar- og tæknitengda starfsemi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .