Tölvuleikjaframleiðandinn CCP mun á næsta ári skjóta einni tekjustoð undir rekstur sinn til viðbótar við áskriftarleikinn EVE Online. Um 350 þúsund manns um allan heim sem spila leikinn sjá CCP fyrir tekjum en það mun breytast á næsta ári, að því er greint var frá á aðalfundi CCP í síðustu viku. Fyrstu persónu skotleikurinn Dust 514, sem verið hefur í nokkur ár í bígerð, mun byrja að skapa tekjur fyrir CCP á næsta ári. World of Darkness, sem einnig verður áskriftarleikur líkt og EVE Online, mun síðan fara að skapa tekjur árið 2013 samkvæmt áætlunum sem kynntar voru á aðalfundinum. Þegar þessum áformum verður hrint í framkvæmd verða tekjustoðir CCP þrjár í stað þeirrar einu sem er EVE Online.

Mikill rannsóknar- og þróunarkostnaður

Hagnaður CCP í fyrra var 5,4 milljónir dollara, eða sem nemur um 620 milljónum króna. Tekjur jukust milli ára, fóru úr 55,3 milljónum árið 2009 í rúmlega 59 milljónir dollara í fyrra. Rekstrarkostnaður var 46,6 milljónir dollara, og jókst um sjö milljónir dollara milli ára. Kostnaðurinn er ekki síst bundinn í rannsóknum og þróun vegna hinna nýju leikja, Dust 514 og World of Darkness. Samkvæmt efnahagsreikningi fyrir árið 2010 var þróunarkostnaður um 23,5 milljónir dollara í fyrra og jókst mikið milli ára. Árið 2009 var hann 17 milljónir dollara og árið 2008 15,4 milljónir dollara.

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, segir að aukinn þróunarkostnaður milli ára skýrist af því að fyrirtækið hafi sett aukinn slagkraft í þróun til að flýta fyrir vinnu við nýja leiki. "Eins og fram kemur í ársskýrslunni þá fórum við í hlutafjárútboð árið 2009, m.a. til þess að auka við rannsóknir og þróun er tengdust Dust 514 og World of Darkness. Sú vinna hefur gengið vel," sagði Hilmar Veigar. Hann vildi ekki tjá sig um hvar Dust 514 færi fyrst á markað eða hvenær það yrði nákvæmlega. "Þetta eru viðkvæmar samkeppnisupplýsingar og ég er ekki tilbúinn að tjá mig um þetta frekar að svo stöddu," sagði Hilmar Veigar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.