CCP stefnir að því að hefja dreifingu á tölvuleik sínum Eve-Online í verslanir út um allan heim í mars næstkomandi. Um leið er félagið að kynna stærstu uppfærslu sem gerð hefur verið á leiknum.

Að sögn Hilmars Veigars Péturssonar, framkvæmdastjóra CCP, mun það gerast í gegnum samstarf þeirra við Atari og verður leiknum dreift í 55 þúsund búðir um allan heim.

“Þetta hefur í för með sér að leikurinn birtist mun fleiri en áður. Oftast er tölvuleikjum dreift í búðum en við höfum yfirleitt gert þetta á netinu,” sagði Hilmar.

CCP er nú að ráða 16 nýja starfsmenn, bæði hér og erlendis og þar með er starfsmannafjöldi þeirra kominn í 380 manns.