Tölvuleikjaframleiðandinn CCP hefur gengið frá endurfjármögnun á 1,35 milljarða króna láni, sem átti að vera á gjalddaga á morgun, 28. október. Samkvæmt upplýsingum frá CCP er um erlenda fjármögnun að ræða til nokkurra ára. Þessi endurfjármögnun skiptir fyrirtækið töluverðu máli, því laust fé í byrjun þessa árs nam um 1,28 milljörðum króna og hefði því ekki dugað til að greiða upp lánið.

Eins og greint var frá í síðustu viku greip CCP til umfangsmikilla hagræðingaraðgerða, sem m.a. fólust í uppsögnum á 120 starfsmönnum, um 20% af heildarstarfsmannafjölda fyrirtækisins. Það er því vert að skoða hvað það er í rekstri fyrirtækisins sem gerir aðgerðir sem þessar nauðsynlegar.

Þróunarkostnaður mjög hár

Eins og CCP hefur sjálft sagt þá var hluti vandans fólginn í því að fyrirtækið var að þróa tvo nýja tölvuleiki í einu og þýddi það að þróunarkostnaður var mjög hár miðað við tekjur. Ef ekki hefði komið til greiðslu á nýju hlutafé að fjárhæð 16,6 milljónir dala inn í rekstur CCP í fyrra væri lausafjárstaða fyrirtækisins afar erfið. Í uppgjöri fyrir síðasta ár kemur fram að fjárstreymi frá rekstri var jákvætt um 17,4 milljónir dala, andvirði um tveggja milljarða króna, en fjárstreymi til fjárfestinga var neikvætt um 25,9 milljónir dala. Þar skiptir langmestu máli 23,5 milljóna króna fjárfesting í rannsóknum og þróun, þ.e. vinna við óútgefna tölvuleiki, annars vegar Dust 514 og hins vegar World of Darkness. Það sem bjargar sjóðstreymi fyrirtækisins er áðurnefnt nýtt hlutafé, en jafnvel þegar það er tekið með í reikninginn er lausafjáraukning CCP aðeins um 7,4 milljónir dala.

Þegar þetta er haft í huga sem og fækkun áskrifenda á flaggskipsleiknum EVE Online er því ekki skrýtið að gripið hafi verið til hagræðingaraðgerða í mánuðinum. Stærstu kostnaðarliðir fyrirtækisins eru þróun og launakostnaður og munu uppsagnir á tæplega 120 manns því hafa áhrif til lækkunar á rekstrarkostnaði. Fyrirtækið sjálft hefur ekki gefið upp hve margir hafa sagt upp áskrift sinni á leiknum, en fjöldi spilara fór upp í 400.000 fyrr á árinu. Hver áskrifandi greiðir á bilinu 1.200 til 2.300 krónur á mánuði, eftir því hvernig áskriftarleið hann hefur valið sér. Hafi áskrifendum til dæmis fækkað um 10.000 er því um að ræða tekjutap upp á 12-23 milljónir króna á mánuði fyrir fyrirtækið.