*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 8. júlí 2020 10:20

CCP fjölgar starfsfólki

Rekstur CCP gengið vel í miðjum heimsfaraldri, félagið hefur verið að bæta við sig starfsfólki og hyggst halda því áfram.

Ritstjórn
Hilmar Veigar Pétursson er forstjóri CCP.
Aðsend mynd

Rekstur tölvuleikjaframleiðandans CCP hefur, að sögn stjórnenda, gengið vel að undanförnu og er töluverður vöxtur hjá félaginu. Sökum þess hefur CCP verið að fjölga starfsfólki og hyggst halda því áfram á næstu mánuðum. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Félagið er að gefa frá sér nýjan tölvuleik. Um er að ræða farsímaleik og hafa 3,6 milljónir manns með Android stýrikerfið nú þegar forskráð sig fyrir beta-útgáfu. Leikurinn heitir Echoes og er byggður á EVE Online heiminum og unnin í samstarfi við kínverska leikjarisan NetEase. Leikurinn kemur út um allan heim í ágústmánuði en kínverska útgáfan af leiknum er áætluð á markað árið 2021.

Vel hefur gengið hjá félaginu en það sótti til að mynda ekki um hlutabætur. Eftirspurn eftir leikjum fyrirtækisins á heimsvísu hefur aukist síðustu vikur og mánuði. Til marks um þetta þá er spilun EVE Online tölvuleiksins í dag með því mesta sem hún hefur verið nokkru sinni, 17 árum frá útgáfu leiksins, með rúmlega hálfa milljón manna sem spila leikinn í hverjum mánuði.

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP segir að aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að styðja við nýsköpun, þar sem þak á endurgreiðslur vegna nýsköpunarverkefna voru hækkuð tímabundið í tvö ár, hafi virkað sem hvatning fyrir CCP að vaxa meira á Íslandi.

„Við erum um þessar mundir að skoða ýmis ný tækifæri sem gætu leitt af sér aukningu á starfsemi CCP á Íslandi. Líkt og í þeim stóru kvikmyndaverkefnum sem hingað hafa komið síðustu ár þá værum við ekki að gera það nema að umgjörðin sem hagkerfið býður uppá til nýsköpunar sé samkeppnishæf við önnur lönd þar sem við erum með starfsemi. Stjórnvöld á Íslandi hafa nú tekið stórt skref í því að koma landinu á kortið hvað nýsköpun varðar og því fögnum við mjög.

Þetta mun leiða til þess að það komi stór nýsköpunarverkefni hingað til lands þar sem mjög mikilvægt er að geta sótt um endurgreiðslur vegna kostnaðar við rannsóknir og þróunarstarf, eins og sýnt hefur sig að virkar hvað kvikmyndaverkefnin varðar. Við erum með slík alþjóðleg verkefni á teikniborðinu og það liggur fyrir að þessi breyting mun skila árangri við að skapa ný hálaunastörf í tæknigeiranum hér heima,“ segir Hilmar.