Íslenska tölvuleikjafyrirtækið CCP hyggst reisa nýjar starfsstöðvar við Sturlugötu í Vatnsmýri samsíða húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar. Greint er frá þessu á mbl.is .

Þar kemur fram að nýja byggingin verði 14.000 fermetrar að stærð. Áætlað er að framkvæmdir hefjist um næstu áramót, en til þess að það geti gerst þarf Reykjavíkurborg að veita leyfi fyrir sameiningu tveggja lóða. Talið er að framkvæmdirnar geti tekið tvö til tvö og hálft ár.

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, segir í samtali við mbl.is að tími hafi verið kominn á nýja staðsetningu fyrir starfsemina hér á landi samhliða framtíðaráformum fyrirtækisins. CCP mun undirrita samning um flutning starfseminnar kl. 14 í dag.