Stjórn CCP hf., sem rekur fjöldaþátttakendaleikinn Eve, hefur boðað til hluthafafundar þar sem aðalmál á dagskrá er ósk um heimild til hlutafjáraukningar upp á allt að 400 milljónir króna að nafnvirði.

Að sögn Hilmars V. Péturssonar, forstjóra CCP, er aukningin hugsuð til þess að mæta kaupréttarsamningum við starfsmenn fyrirtækisins. Aðspurður sagðist hann ekkert geta sagt til um hvort félagið þyrfti á frekara hlutafé að halda vegna aukningar eða breytinga á starfsemi þess á næstunni.

Fyrr á árinu voru fréttir um áhuga CCP á að sækja inn í Kína og sagði Hilmar að það hefði í sjálfu sér gengið ágætlega.

"Við erum á áætlun miðað við það sem við höfðum séð fyrir okkur í byrjun þessa árs. Það tekur auðvitað sinn tíma að ná fótfestu þarna en okkur hefur orðið ágætlega ágengt. Á ákveðnu tímabili vorum við með eina og hálfa milljón manns að spila í tilraunaprófunum og þegar sú holskefla gekk yfir okkur héldum við kannski að þetta myndi gerast hraðar. Það sem er að gerast núna er á okkar áætlunum og því má segja að Kína sé eftir þeirri áætlun sem við höfðum lagt út með."

- Eru þið með miklar væntingar til markaðarins í Kína?

"Markaðurinn í Kína er mjög stór fyrir svona vöru, þeir hafa mikinn áhuga fyrir svona leikjum og það er nú þannig að ef þú hittir á einhverja taug í Kína þá getur það sprungið í loft upp hvað fjöldatölur snertir. Við erum hins vegar ekki að búa til leik sem er þannig, við erum að reyna að staðsetja hann sem ákveðna munaðarvöru. Það er dýrara að spila hann og hann er erfiðari og flóknari og þátttakendur þurfa að vera klárari en í öðrum leikjum. Þessi áætlun er að skila okkur notendum í samræmi við væntingar," sagði Hilmar. Hannbætti við að það hefði alltaf verið ætlunin með Eve að hann væri flóknari og krefðist meira af fólki en aðrir leikir.

Að sögn Hilmars er Eve núna meðal efstu fimm fjöldaþátttakendaleikja á Vesturlöndum. Félagið rekur nú tvö vefþjónustusvæði, annað á Vesturlöndum og hitt í Asíu. 45% áskrifenda koma frá Bandaríkjunum, 20% frá Bretlandi, 10% frá Norðurlöndunum og 7% frá Þýskalandi. Kínverjar eru 2% þeirra sem spila á Vesturlandanetþjóninum.

Hilmar sagði að það hefði verið reynsla þeirra að eftir því sem fleiri spiluðu á kínverska netþjóninum því fleiri yrðu áhugasamir um enska netþjóninn. Menn geta spilað á báðum netþjónum en eru þá í raun að spila tvo aðskilda leiki og geta ekki fært árangur sinn á milli.

En CCP hefur ekki aðeins haft væntingar um mikla þátttöku í Kína heldur hefur félagið einnig verið með ráðagerðir um að setja upp starfsstöð þar. Nú starfa fjórir starfsmenn á vegum fyrirtækisins í landinu, auk þess sem starfsmenn frá íslensku skrifstofunni séu þar reglulega. Hilmar sagði að samkeppnisaðilarnir hefðu verið að byggja upp starfsemi í Kína og það væri mikilvægt að hafa góða aðstöðu þar enda mikið af hæfu starfsfólki auk þess sem áhugi á leikjum væri mikill.

Aðspurður um frekari vörur frá CCP sagðist Hilmar lítið geta sagt af samkeppnisástæðum. "Eins og er gefum við ekkert upp um það. CCP er í mikilli alþjóðlegri samkeppni og viljum ekkert gefa upp um það. Við höfum meira bent á hið augljósa þegar kemur að frekari vörum. Við höldum áfram að styrkja þann leik sem við höfum en á ákveðnum tímapunkti verður styrkurinn það mikill að við getum nýtt hann í önnur verkefni."

Hilmar sagði að áætlanir um veltu væru ekki gefnar upp en hann sagðist sannfærður um að veltan tvöfaldaðist á milli ára. Hann sagðist einnig nokkuð viss um að afkoman myndi batna meira en sem því nemur enda gengisþróunin útflytjendum hagstæð sem kæmi sterkt fram í þeirra rekstri.