*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 29. ágúst 2017 14:45

CCP gefur út leik í sýndarveruleika

CCP gefur í dag út leikinn SPARC sem er sjötti tölvuleikur fyrirtækisins, en hann er sá fyrsti sem ekki gerist í EVE heiminum.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Tölvuleikjaframleiðandinn CCP gefur í dag út nýjan leik, keppnis-sýndarveruleikaleikinn Sparc, fyrir PlayStation 4 leikjavélar SONY að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu.

Sparc hefur verið í þróun á starfsstöð CCP í Atlanta í Bandaríkjunum. Frumútgáfa af leiknum, sem bar heitið Project Arena, var til sýnis og prófunar á EVE Fanfest hátíðinni í Reykjavík í fyrra og í kjölfar jákvæðra viðbragða þar meðal blaðamanna og almennra gesta, sem og á tölvuleikjaráðstefnunum E3 og Gamescom í kjölfarið, var ákveðið að ráðast í gerð fullbúins tölvuleiks úr hugmyndinni.

Tilkynnt var um útgáfu á Sparc á GDC ráðstefnunni í San Francisco í febrúar og í dag kemur leikurinn út fyrir PS VR sýndarveruleikabúnað PlayStation 4 leikjavélanna.

“Þeir sem tengjast og keppa í netsamfélagi Sparc spilara eru að taka þátt í því sem við teljum vera ein byltingarkenndasta leikaupplifun sem komið hefur fram á sviði sýndarveruleika til þessa,“ segir Hilmar Veigar Pétursson forstjóri CCP. „Við erum spennt fyrir því að gefa Sparc fyrst út fyrir PS VR  og gefa stórum hópi spilara tækifæri að njóta leikjaupplifunarinnar af eigin raun.”

Sparc er sjötti tölvuleikur CCP og sá fyrsti á vegum fyrirtækisins sem ekki gerist í EVE heiminum. CCP hefur áður hefur gefið út leikina EVE: Online, DUST 514, Gunjack, EVE: Valkyrie og Gunjack 2: End of Shift. Í haust og vetur mun fyrirtækið gefa út viðbætur við bæði EVE Online og EVE: Valkyrie.

Stikkorð: CCP tölvuleikur sýndarveruleiki Sparc