Leikjafyrirtækið CCP gaf í dag út nýja útgáfu af tölvuleiknum Eve Online. Útgáfan heitir Rubicon og er þetta 20. útgáfa leiksins. Fram kemur í tilkynningu frá CCP að með útgáfunni séu boðaðir nýir tímar í þróun Eve Online.

CCP segir í tilkynningunni að nýjungar í Eve Online, sem líti dagsins ljós á hverju ári, séu oft þróaðar í samvinnu við spilara leiksins og lýðræðislega kjörið ráð þeirra, Council of Stellar Management (CSM). Þessar nýju útgáfur hafa tryggt áframhaldandi þróun EVE Online, vöxt EVE heimsins og árlega aukningu áskrifenda leiksins sem í dag telja um 500.000 manns.

Útgáfan nú gefur spilurum Eve Online aukið frelsi og möguleika til að kanna ný svæði EVE heimsins - sem í dag samanstendur af yfir 67.000 plánetum, rúmlega 340.000 tunglum og 7.929 sólkerfum – og komist yfir nýjar tæknilausnir og náttúruauðlindir. Hún felur í sér ýmsar breytingar á því hvernig spilarar leikins geta háð stríð og byggt upp bandalög. Ný geimsskip standa nú spilurum leiksins til boða og ný hættuleg svæði í EVE heiminum opnast.

Hér má sjá hvernig Rubicon-útgáfan lítur út: