Starfsmenn tölvuleikjafyrirtækisins CCP höfðu 660 þúsund krónur í meðallaun í fyrra, 7,9 milljónir á árinu öllu. Þetta kemur fram í ársreikningi CCP.

CCP gerir reikninga sína upp í Bandaríkjadölum. Fram kemur í uppgjöri fyrirtækisins að launagreiðslur námu rétt tæpum 34 milljónum dala, jafnvirði fjögurra milljarða íslenskra króna. Til samanburðar námu launagreiðslurnar tæpum 36,4 milljónum dala í hittifyrra.

Stöðugildi voru að jafnaði 505 hjá CCP í fyrra. Það er 90 starfsmönnum færra en árið 2011. Fyrirtækið er með tvær skrifstofur í Bandaríkjunum, tvær í Bretlandi, eina í Kína og eina hér á landi.

Fram kom í upplýsingum sem Hagstofan birti í vikunni að meðallaun hér á landi voru 402 þúsund krónur á síðasta ári. Meðallaun í upplýsingatækni og fjarskiptageiranum námu 477 þúsund krónum.