CCP hagnaðist um tæplega 5,3 milljónir dollara í fyrra eða um 712 milljónir króna sé miðað við meðalgengi síðasta árs. Var þetta mikill viðsnúningur því árið 2019 nam tapið 3,2 milljónum dollara eða tæplega 400 milljónum króna.

Tekjur CCP jukust töluvert á milli ára. Þær fóru úr tæplega 48 milljónum dollara árið 2019 í tæplega 62 milljónir árið 2020. Rekstrarkostnaður lækkaði úr 59,8 milljónum dollara í 58,2 milljónir á milli ára.

Eignir CCP í lok árs 2020 voru metnar á 63,8 milljónir dollara og nam eigið fé félagsins á sama tíma 26,2 milljónum dollara. Skuldir CCP jukust úr 14,8 milljónum dollara árið 2019 í 29,3 milljónir í fyrra.

Suður-kóreska leikjafyrirtækið Pearl Abyss keypti CCP árið 2018 og var hluti kaupverðsins skilyrtur afkomu CCP. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í lok febrúar þá náði CCP ekki rekstrartengdum markmiðum á síðasta ári eða árið 2019. Lækkaði kaupverðið úr 425 milljónum dollara í 225 milljónir.