"Við ætlum að ráða 150 starfsmenn á næstu þremur árum og stækka starfsstöð okkar í Bandaríkjunum," segir Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri tölvuleikjafyrirtækisins CCP. Greint er frá vaxtaráformum CCP í blaðinu Games Industry.

Hilmar Veigar segir stækkunina í Bandaríkjunum vera rökrétt framhald á starfsemi félagsins. Hin nýju störf verða fyrst og fremst við tölvuleikjagerð, segir Hilmar Veigar en fyrirtækið vinnur nú að gerð tveggja stórra leikja eins og áður hefur komið fram, Dust 514 og World of Darkness. "Við réðum 200 starfsmenn á síðasta ári þannig að fyrirhuguð stækkun um 150 störf á þremur árum er fyrst og fremst til marks um að fyrirtækið er að vaxa áfram."

Hilmar Veigar segir að vel hafi gengið að stækka spilarahóp EVE-online. Þeir eru nú um 360 þúsund á heimsvísu og er stefnan sett á að stækka hópinn enn frekar á þessu ári. "Við vonumst til þess að komast yfir 400 þúsund spilara á þessu ári," segir Hilmar Veigar.

Starfsmenn CCP eru nú um 600 talsins, þar af eru tæplega 300 hér á landi.