Tölvuleikjaframleiðandinn CCP kynnti í dag útgáfu á nýjum tölvuleik, EVE: Valkyrie. Leikurinn er afsprengi tilraunaverkefnis sem sýnt var á spilarahátíð EVE Online í mars á þessu ári og bar hann þá nafnið EVE-VR. Leikurinn nýtir sér sýndarveruleikatæknina Oculus Rift og í honum er Spilurum gefinn kostur á að gerast flugmenn í geimskipum í EVE heiminum. Leikurinn er hraður og óvæginn þar sem spilarar eigast við í skotbardögum. Sýndarveruleikinn sem leikjahönnun EVE: Valkyrie byggir á gerir upplifunina einstaklega raunverulega og þannig úr garði gerða að það er engu líkara en spilari leiksins sé kominn í flugstjórasæti geimskipsins, þar sem hann mætir óvinum sínum og hættum.

Tilkynningin í dag er gerð á stærstu leikjaráðstefnu Evrópu, Gamescom í Köln, þar sem blaðamönnum er jafnframt gefinn kostur á að spila prufuútgáfu af leiknum. EVE: Valkyrie kemur út á næsta ári.

Á spilarahátíðinni í vor vakti leikurinn mikla athygli bæði spilara og fjölmiðlamanna og hið sama á við um tilkynninguna um EVE: Valkyrie í dag. Stærsti leikjavefur heims, IGN, fjallar um málið í nótt í forsíðufrétt og segir söguna um tilurð leiksins merkilega.

Í tilkynningu frá CCP segir Hilmar Veigar Pétursson að það sem hafi byrjað sem ástríða hjá litlum hópi hæfileikaríkra starfsmanna CCP hafi orðið að einum af umtöluðustu leikjum ársins – og það áður en tilkynnt var um útgáfu hans. Hann segir fyrirtækið vera með metnaðarfull áform fyrir EVE: Valkyrie.

Sjá má kynningarmyndband fyrir leikinn hér fyrir neðan.