Tölvuleikjaframleiðandinn CCP tilkynnir að þróun á tölvuleiknum World of Darkness, sem hefur verið í vinnslu á skrifstofu fyrirtækisins í Atlanta í Bandaríkjunum, hefur verið hætt. Í kjölfar þessarar ákvörðunar eru lögð niður 56 stöðugildi hjá CCP í Atlanta. Hluti starfsmanna sem missa stöður sínar hefur verið boðin önnur störf hjá fyrirtækinu. CCP veitir öllum fráfarandi starfsmönnum aðstoð við atvinnuleit.

Þeir starfsmenn CCP sem halda áfram störfum fyrir fyrirtækið í Atlanta munu vinna að þróun leikja í EVE veröldinni, sem þýðir að í fyrsta sinn frá árinu 2006 munu allir starfsmenn fyrirtækisins starfa að einni og sömu leikjaveröld.

„Ákvörðunin að hætta þróun World of Darkness er ein sú erfiðasta sem ég hef tekið. Ég hef haft trú á þeirri sýn að búa til fjölspilunar tölvuleikjaupplifun í veröld World of Darkness, og fylgst með þróunarteymi leiksins vinna af ástríðu að því markmiði síðustu ár,“ segir Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, í tilkynningu vegna ákvörðunarinnar.

Hann þakkar öllum þeim sem hafa unnið að því að gerð World of Darkness tölvuleiksins. „Þrátt fyrir að þetta hafi verið erfið ákvörðun sem hefur áhrif á vini okkar og fjölskyldur, þá mun hún sameina fyrirtækið í því markmiði að þróa leiki fyrir eina og sömu leikjaveröldina sem setur okkur í sterkari stöðu til að ná árangri. Við erum nú staðráðnari en nokkru sinni fyrr að gera EVE að stærstu leikjaveröld í heimi,” segir Hilmar Veigar.