Tölvuleikjaframleiðandinn CCP og NTV skólinn hafa skrifað undir samstarfssamning sem er ætlað að efla hagnýtt tækninám og auka framboð á hæfileikaríku starfsfólki með tækniþekkingu. Samningurinn mun taka sérstaklega til kerfisstjórnunarnáms NTV sem er eitt af vinsælustu námsbrautum skólans.

CCP mun koma að þróun og uppbyggingu námsins og sérfræðingar á vegum CCP munu einnig leggja til fyrirlestra auk þess mun CCP bjóða upp á starfsþjálfun fyrir framúrskarandi nemendur.

Skúli Gunnsteinsson framkvæmdastjóri og skólastjóri NTV segir að „Samstarfið við CCP er liður í að efla sérstöðu NTV-skólans, sem er náið gagnvirkt samstarf við leiðandi fyrirtæki í íslensku atvinnulífi. Samstarfið mun gera námið markvissara og verðmætara fyrir okkar nemendur sem mun efla eftirspurn eftir tækninámi hjá skólanum. Við erum ánægð með traustið sem CCP sýnir okkar starfi.“