Siminn og CCP hafa gert með sér samning sem felur það í sér að Síminn mun sjá um að  tengja saman allar skrifstofur CCP á lokað gagnaflutningsnet í gegnum samstarf Símans og Orange Business Services sem er, samkvæmt tilkynningu frá Símanum einn af stærstu þjónustuaðilum á sviði víðnetstenginga í heiminum.

Síminn býður CCP aðgengi að MPLS neti Orange Business Service sem tengir saman skrifstofur þeirra á Íslandi, í Bandaríkjunum, í Kína og á Bretlandi inn á eitt staðarnet.

Í tilkynningunni kemur fram að þessi þjónusta gerir CCP kleift að hafa allar skrifstofurnar sínar á einu staðarneti sem auðveldar öll samskipti þeirra á milli landa ásamt því að tryggja CCP hámarks öryggi og uppitíma á netinu.

Jón Hörðdal framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá CCP segir öryggi og uppitíma á netkerfum CCP vera lífæð fyrirtækisins og við val á samstarfsaðila skipti öllu máli að þeir aðilar gætu boðið örugg gagnaflutningssambönd þar sem CCP er með skrifstofur erlendis.

„Síminn varð fyrir valinu vegna þess þjónustuframboðs sem hann býður íslenskum fyrirtækjum erlendis í gegnum samstarf sitt við Orange Business service,” sagði Jón.