Tölvuleikjafyrirtækið CCP hefur sagt upp 15 starfsmönnum á skrifstofu sinni í Atlanta í Bandaríkjunum. Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP, segir starfsmennina hafa unnið við gerð og þróun fjölspilaraleiksins World of Darkness. Hjá CCP starfa rúmlega 500 manns á fimm starfsstöðvum fyrirtækisins. Höfuðstöðvarnar eru hér á landi. Því til viðbótar eru tvær í Bandaríkjunum, ein í Bretlandi og ein í Kína. Hjá CCP í Atlanta vinna 100 manns.

CCP hefur í tíu ár rekið og þróað tölvuleikinn Eve Online og Dust 514 sem nýverið kom út.

Leikurinn World of Darkness hefur verið í smíðum síðastliðin fjögur ár. Í tilkynningu frá CCP kemur lítið annað fram en að ákveðið hafi verið að segja starfsfólkinu upp í tengslum við mat á þróun leiksins.